154. löggjafarþing — 44. fundur,  6. des. 2023.

fjárlög 2024.

1. mál
[20:28]
Horfa

Frsm. 1. minni hluta fjárln. (Björn Leví Gunnarsson) (P) (andsvar):

Forseti. Nýlega kom út skýrsla forsætisráðherra um fátækt og áætlaðan samfélagslegan kostnað vegna hennar þar sem kemur fram að rúmlega 47.000 manns, næstum því 48.000 manns, mælast undir fátæktarmörkum, lágmarksframfærslu. 47.795 einstaklingar árið 2020, þar af 9.400 börn. Það er talið að það þyrfti um 72 milljarða kr. til þess að ná sjálfbærniviðmiðinu um enga fátækt. 72 milljarðar kr. Á sama tíma er talið að samfélagslegur kostnaður samfélagsins vegna fátæktar sé á bilinu 31–92 milljarðar sem þýðir, miðað við svona ýktasta mat, að það er ódýrara að koma fólki úr fátækt en sem nemur samfélagslegum kostnaði, þó að líkurnar á því séu hins vegar ekki endilega miklar því að líklega er það einhvers staðar á miðju bilinu, í kringum 50 milljarðar eða eitthvað því um líkt, þá er eilítið dýrara að koma fólki úr fátækt heldur en samfélagslegur kostnaður er. En ekkert rosalega mikið meira því að afleiðingar fátæktar eru svo miklu meiri persónulega fyrir fólk og börn þess sem eru líklegri til þess að lenda einnig í fátækt eða ýmsu öðru o.s.frv., eru fórnarlömb þessa „kostnaðar“, innan risastórra gæsalappa. (Forseti hringir.) Mig langaði að velta því upp með hv. þingmanni hvort hann hafi skoðað tillögur Pírata um borgaralaun til þess mögulega að leysa fátæktarvandann.